FUNI er tvíeykið Bára Grímsdóttir og Chris Foster, sem hófu samstarf árið 2001. Síðan hafa þau keppst við að blása lífi í íslenska þjóðlagatónlist sem hefur leynst í gömlum upptökum og lítt þekktum bókum og handritum, auk þess sem þau hafa bætt við nýjum lögum í þjóðlegum stíl. Flest laganna voru sungin án nokkurs undirleiks áður fyrr en FUNI bætir hljóðfæraleiknum við og notar gítar, kantele og langspil, Þau flytja kvæðalög, tvísöngslög, sálma og enskar ballöður, útsetja allt sjálf og hafa haldið námskeið og komið fram á ýmsum hátíðum og tónleikum, einnig í útvarpi, hér heima og víða í Evrópu, Norður-Ameríku og Kína.
Bára Grímsdóttir, söng- og kvæðakona, er einn virtasti flytjandi íslenskra þjóðlaga og nýtur einnig mikillar virðingar sem tónskáld. Hún ólst upp við söng og kveðskap, heyrði og lærði, allt frá barnæsku, kveðskap foreldra sinna og afa og ömmu í Grímstungu í Vatnsdal.
Bára hefur lengi fengist við flutning á kvæðalögum og margs konar íslenskri þjóðlagatónlist, bæði veraldlegri og trúarlegri. Hún hefur unnið með ýmsum kvæðamönnum og tónlistarfólki og sem tónskáld og útsetjari hefur Bára iðulega nýtt sér íslensk þjóðlög sem uppsprettu eigin sköpunar.
Chris Foster ólst upp í Somerset á Suðvestur-Englandi, þar sem hann kynntist fyrst þjóðlögum og hóf tónlistarferil sinn. Hann er tvímælalaust frábær flytjandi enskrar þjóðlagatónlistar. Síðastliðin 40 ár hefur Chris haldið ótal tónleika á Bretlandseyjum, en einnig farið í tónleikaferðir víðsvegar um Evrópu, Bandaríkin og Kanada. Hann hefur gefið út sex plötur með eigin söng og gítarundirleik en einnig tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum.
Lifandi tónlistarflutningur Chris einkennist af kraftmiklum söng og góðum gítarleik, sem styrkist enn frekar af fágaðri fyndni hans og eldmóði. Með þessu tekst honum að draga áheyrendur sína inn í sagnaheiminn sem hann skapar með söngvunum.
Bára og Chris verða með tónleika í gömlu Stykkishólmskirkju við Aðalgötu laugardaginn 13. júlí kl. 16.30 í tengslum við Þjóðbúningadag Norska hússins – Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla.
Tóndæmi og ýmsan fróðleik er að finna á: http://www.funi-iceland.com