Sunnudaginn 14. október n.k. kl.17 býður Listvinafélagið upp á tónleika með Hallvarði Ásgeirsyni og kammersveit hans.
Kammersveit Hallvarðs spilar andrýmistónlist (e. ambience) sem ganga út frá hljóðhringrás opinna strengja gítarsins (e. feedback).Verkin ganga út frá pedaltón, sem hljóðskúlptúr er vafinn í kringum.
Tónlistin markast af gítarleik Hallvarðs, sem er unnin í gegnum hljóðeffekta og tölvu, ásamt fjölbreyttum strengjaleik Hallgríms Jónasar Jenssonar á selló og dórófón og Alexöndru Kjeld á kontrabassa og fiðlu.
Dórófónn #7 er smíði Halldórs Arnar Úlfarssonar sem nýtir sér bæði hefbundna spilamöguleika sellósins og einnig endurómun sem verður til þegar strengirnir eru magnaðir upp og hljómur þeirra síðan senduraftur inn í hljómkassa dórófónsins með hjálp raftækni.
Hallvarður Ásgeirsson er tónskáld sem semur klassískar tónsmíðar, raftónsmíðar og vinnur með hljóð í gegnum tölvu. Hann er einnig rafgítarleikari sem vinnur með hljóðeffekta. Verk Hallvarðs falla að mestu leyti í tvo flokka – andrýmistónlist fyrir klassísk hljóðfæri, raftónlist, tónlist sem blandar saman fundnum hljóðum og tónlistarlegum þáttum.
Hann lærði á klassískan gítar frá unga aldri og á rafgítar í Tónlistarskóla FÍH. Hann nam raftónlist við Tónver Tónlistarskóla Kópavogs 2000-2001. Hann nam tónsmíðar á brautinni tónsmíðar/nýmiðlar við Listaháskóla Íslands 2002-2006. Hann stundaði nám í tónsmíðum við Brooklyn College 2007-2009 þar sem hann lauk MA gráðu og lærði hjá Douglas Cohen, Tania Leon og Jason Eckhart. Hann hefur einnig leikið í mörgum hljómsveitum svo sem Stórsveit Nix Noltes, Líkn og Fengjastrút. Verk hans hafa verið flutt á International Electroacoustic Music Festival í Brooklyn College, og einnig voru flutt verk fyrir sjálfspilandi hljóðfæri og gítar í LEMUR (League of Musical Urban Robots). Tónsmíð fyrir leikritið MIKA var flutt í Sameinuðu Þjóðunum nóvember 2008. Hallvarður vann tónsmíðakeppnina Ný Tónskáld á hátíðinni Við Djúpið. Verkið Heiðskírt var æft upp af blásarakvintett og flutt í tónleikasalnum Hamrar á Ísafirði sunnudaginn 27. júní 2010. Lagið Rýtingur eftir Hallvarð og Gest Guðnason komst áfram í undankeppni Evróvision 2011.
Hallvarður hefur áður samið fyrir dórófóna, þ.a.m verkið 1 milljón sólir (2003), en það var samið dórófón#1 ásamt strengjum og orgeli og verkið Miniature#5 (2011), en það var samið fyrir píanó og dórófón#7. Verkið Serial Killer(2004) var samið fyrir strengjasveit og tvo gítara. Tónverkið Paradox XII(2008) var samið fyrir fiðlu er höfundur var við nám í Brooklyn College. Það nýtír sér “extended technique” fyrir fiðlu.