Stykkishólmskirkja sem arkitektinn Jón Haraldsson teiknaði var vígð árið 1990 og þótti mikið mannvirki í bæjarfélagi með innan við 1500 íbúa. Í Stykkishólmi hefur verið öflugt menningar- og tónlistarlíf í áratugi. Þegar Stykkishólmskirkja var vígð flutti forláta Steinway flygill sem Jónas Ingimundarson valdi en bæjarbúar söfnuðu fyrir, úr félagsheimilinu í kirkjuna til frambúðar. Orgel kom í kirkjuna úr gömlu kirkjunni í Stykkishólmi sem sérsmíðað hafði verið fyrir hana á sínum tíma. Í janúar kom svo 22 radda glæsilegt Klais orgel í Stykkishólmskirkju annað tveggja Klais orgela á Íslandi, hitt verandi í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Enn og aftur söfnuðu bæjarbúar fé til orgelkaupanna. Við vígslu orgelsins árið 2012 var stofnað Listvinafélag Stykkishólmskirkju sem tók við umsjón tónleikahalds í kirkjunni og hefur það á stefnuskránni að auka menningarlíf í kirkjunni. Síðustu tvo áratugi hafa verið haldnir sumartónleikar í Stykkishólmskirkju enda hljómfögur kirkja með fyrsta flokks hljóðfærum til tónlistarflutnings. Margir ungir og upprennandi íslenskir og erlendir tónlistarmenn hafa komið fram í Stykkishólmskirkju og margir oftar en einu sinni. Árið 2012 var hleypt af stokkunum sérstökum tónleikum innan sumartónleikaraðarinnar Orgelstykki og voru á tveimur vikum haldnir 6 tónleikar undir merkjum Orgelstykkjanna. Þar komu fram íslenskir organistar einir eða með fleiri tónlistarmenn með í för með efnisskrá að eigin vali. Úr varð vel heppnuð blanda og fjölbreyttir tónleikar. Í ár verður haldið áfram með enn fleiri orgelstykki með tónlistarmönnum sem eru að reyna Klaisorgelið í fyrsta sinn. Aðrir tónleikar verða samhliða orgelstykkjunum og verður fjölbreytt tónlist í boði, sem endranær. Björn Thoroddsen, Sunna Gunnlaugs, Lars Janson og Sigurður Flosason eru stór nöfn í alþjóðlegu samhengi djassheima og þau munu öll leika á tónleikum í Stykkishólmskirkju í sumar. Bára Grímsdóttir og Chris Foster verða á þjóðlegum nótum með gömlu íslensku hljóðfærin í bland við nýrri og koma fram í gömlu friðuðu kirkjunni í Stykkishólmi í tengslum við árlegan Þjóðbúningadag sem haldinn er í Norska húsinu – byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla.
Næstu tónleikar í Stykkishólmskirkju:
24. júní kl. 20 – Orgelstykki: Friðrik Vignir Stefánsson
27. júní kl. 20 – Orgelstykki: Sveinn Arnar Sæmundsson
29.júní kl. 16 – Orgelstykki: Örn Magnússon & Marta Guðrún Halldórsdóttir
2. júlí kl. 20 – Orgelstykki: Douglas Brotchie
6. júlí kl. 16 – Orgelstykki: Lára Bryndís Eggertsdóttir