Fyrstu tónleikar sumarsins á vegum Listvinafélags Stykkishólmskirkju verða á Uppstigningadag, 29. maí 2014 og hefjast kl. 20.
Sigurður Flosason saxófónleikari og Gunnar Gunnarsson organisti munu ýta tónleikaröðinni úr vör og fá til sín Kór Stykkishólmskirkju við flutninginn. Gunnar og Sigurð þarf vart að kynna en þeir eru landskunnir og ríflega það á tónlistarsviðinu. Saxófónleikarinn Sigurður Flosason og organistinn Gunnar Gunnarsson hófu samstarf sitt árðið 1998. Þeir héldu sína fyrstu tónleika í Hallgrímskirkju í september 1999 og fyrsta platan, Sálmar lífsins, kom út árið 2000. Hún snérist um endurútsetngar þekktra sálmalaga og spuna út frá þeim. Sálmar jólanna kom út árið 2001, en á henni voru sálmar og önnur tónlist tengd jólum tekin til skoðunar. Þriðji diskurinn, Draumalandið, kom út árið 2004, en hann hefur að geyma íslensk ættjarðarlög í
spunaútsetningum dúósins. Sá fjórði, Sálmar tímans, kom ári 2010 en á honum er fjölbreytt úrval sálamalaga. Þá hefur komið út safndiskurinn Icelandic hymns (2013) en á honum eru eingöngu íslenskir sálmar af fyrri diskum Sigurðar og Gunnars í útgáfu fyrir erlenda hlustendur. Gunnar og Sigurður hafa komið fram á fjölmörgum tónleikum í öllum landshlutum, en auk þess í Þýskalandi, Danmörku, Færeyjum og Álandseyjum.
Sigurður Flosason
Sigurður Flosason lauk einleikaraprófi á saxófón frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1983. Hann stundaði framhaldsnám í klassískum saxófónleik og jazzfræðum við Indiana University í Bandaríkjunum og lauk þaðan Bachelorsprófi 1986 og Mastersprófi 1988. Sigurður stundaði einkanám hjá George Coleman í New York veturinn 1988-1989. Hann var ráðinn yfirkennari jazzdeildar Tónlistarskóla F.Í.H. 1989 og hefur gegnt því starfi síðan.
Sigurður hefur verið atkvæðamikill í íslensku jazzlífi undanfarin ár. Hann hefur gefið út á þriðja tug geisladiska. Sigurður hefur tekið þátt í mörgum fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum og leikið talsvert erlendis. Hér á landi hefur hann starfað með fjölmörgum hljómsveitum við flestar gerðir tónlistar. Sigurður hefur komið mikið fram á tónleikum, leikið á geisladiskum og starfað í leikhúsum auk ýmissa félags- og stjórnunarstarfa tengdum tónlist. Hann hefur fimm sinnum hlotið íslensku tónlistarverðlaunin og tvívegis verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.
Gunnar Gunnarsson
Gunnar Gunnarsson lauk kantorsprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar árið 1988 og lokaprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík ári síðar. Gunnar stundaði rannsóknir á íslenskum sálmum bæði í Kaupmannahöfn og hér heima og birti niðurstöður í ritgerð sem gefin var út 1993 og nefndist Weyse-handritin og Choralbog for Island. Þar er fjallað um tilurð fyrstu sálmasöngsbókar Íslendinga og þau handrit sem hún byggir á. Gunnar lauk BA-gráðu í almennum málvísindum frá Háskóla Íslands 2010.
Gunnar hefur getið sér gott orð fyrir fjölbreytilegan tónlistarflutning og víða komið fram á tónleikum innan lands og utan. Auk hefðbundinna starfa sem organisti og kórstjóri hefur hann útsett og flutt trúarlega tónlist með óhefðbundnum hætti. Einnig hefur hann leikið á píanó með mörgum þekktum tónlistarmönnum og átt þátt í útsetningum og hljóðritunum bæði djasstónlistar og þjóðlegrar tónlistar. Gunnar hefur gefið út sex diska í eigin nafni. Á undanförnum árum hefur Gunnar í auknum mæli útsett tónlist fyrir kóra og sönghópa sem komið hefur út á vegum kirkjunnar.
Gunnar er organisti Fríkirkjunnar í Reykjavík og stundar meistaranám í málvísindum við Háskóla Íslands.