Sunnudaginn 22. janúar 2012 var nýtt orgel vígt í Stykkishólmskirkju. Orgelið er smíðað af Klais orgelsmiðjunni í Bonn. Biskup Íslands Hr. Karl Sigurbjörnsson og vígslubiskupinn á Hólum Hr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson voru viðstaddir vígsluna og predikaði biskup í messunni. Philipp Klais og Stefan Hilgendorf frá Klais orgelsmiðjunni í Þýskalandi voru einnig viðstaddir víglsuna.
Frumflutt var ný útsetning á verki eftir Hólmarann Hreiðar Inga Þorsteinsson tónskáld „Jómfrú Mariae dans“ fyrir sópran, barítón, barnakór, blandaðan kór og orgel undir stjórn tónskáldsins. Kórstjóri og organisti Stykkishólmskirkju er László Petö.
Að lokinni messu bauð bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar til kaffiveitinga og að þeim loknum hófust orgeltónleikar.
Á orgeltónleikunum léku þrír organistar orgelverk, en þeir hafa allir með einum eða öðrum hætti komið að því að móta og velja hljóðfærið.
László Petö organisti Stykkishólmskirkju flutti: – J.S. Bach: Toccata og fúga í d-moll
– J.S. Bach: Tríósónata í d-moll (1. kafli)
– CH.M. Widor: Toccata
Tómas Guðni Eggertsson sem starfaði sem organisti í Stykkishólmskirkju þegar ákvörðum um orgelkaup var tekin, flutti:
– Felix Mendelssohn: Sónata opus 65 nr. 6 í d-moll
Hörður Áskelsson kantor Hallgrímskirkju sem sat í orgelnefnd Þjóðkirkjunnar þegar undirbúningur hófst, flutti:
– Guilan: Svíta nr. 2
– Boëllmann: Priére a Notre Dame
– Jón Nordal: Toccata
Hörður Áskelsson fjallaði um orgelið á tónleikunum. Tilkynnt var um stofnun Listvinafélags Stykkishólmskirkju á orgeltónleikunum.
Nýja orgelið í Stykkishólmskirkju er annað orgelið á Íslandi frá orgelsmiðju Klais í Bonn. Upphaf söfnunar fyrir orgeli má rekja til ársins árið 2006 þegar haldnir voru minningartónleikar um Sigrúnu Jónsdóttur fyrrum organista og kórstjóra við Stykkishólmskirkju þar sem landsþekktir listamenn komu fram auk heimamanna. Gefinn var út geisladiskur með efni tónleikanna. Endanleg ákvörðun um orgelkaup var tekin árið 2007 og gengið til samninga við Klais vorið 2008.
Hrunið kom illa við orgelsjóðinn þar sem gengi Evrunnar snarbreyttist til hins verra fyrir söfnunina. Það fór þó svo að ákveðið var að taka höndum saman við að ljúka verkefninu og í upphafi árs 2011 hófst lokaáfangi söfnunarinnar og nú í janúar 2012 hefur takmarkið náðst. Orgelið er tákn samhugar í verki og samstöðu bæjarbúa, fyrirtækja, hins opinbera og velunnara Stykkishólmskirkju sem þjónar ekki síður sem menningarhús í Stykkishólmi, enda þekkt tónlistarhús til margra ára. Nýja orgelið er 22 radda og um 1220 pípur eru í því. Stefnt er enn fjölbreyttara tónlistar- og menningarstarfi í tengslum við nýja orgelið og stofnun listvinafélagsins.