Kom þú sæl mín kæra sveit – Bára Grímsdóttir og Chris Foster

CHRIS AND BÁRA MAY 09 high resFUNI er tvíeykið Bára Grímsdóttir og Chris Foster, sem hófu samstarf árið 2001. Síðan hafa þau keppst við að blása lífi í íslenska þjóðlagatónlist sem hefur leynst í gömlum upptökum og lítt þekktum bókum og handritum, auk þess sem þau hafa bætt við nýjum lögum í þjóðlegum stíl. Flest laganna voru sungin án nokkurs undirleiks áður fyrr en FUNI bætir hljóðfæraleiknum við og notar gítar, kantele og langspil, Þau flytja kvæðalög, tvísöngslög, sálma og enskar ballöður, útsetja allt sjálf og hafa haldið námskeið og komið fram á ýmsum hátíðum og tónleikum, einnig í útvarpi, hér heima og víða í Evrópu, Norður-Ameríku og Kína.

Bára Grímsdóttir, söng- og kvæðakona, er einn virtasti flytjandi íslenskra þjóðlaga og nýtur einnig mikillar virðingar sem tónskáld. Hún ólst upp við söng og kveðskap, heyrði og lærði, allt frá barnæsku, kveðskap foreldra sinna og afa og ömmu í Grímstungu í Vatnsdal.

Bára hefur lengi fengist við flutning á kvæðalögum og margs konar íslenskri þjóðlagatónlist, bæði veraldlegri og trúarlegri. Hún hefur unnið með ýmsum kvæðamönnum og tónlistarfólki og sem tónskáld og útsetjari hefur Bára iðulega nýtt sér íslensk þjóðlög sem uppsprettu eigin sköpunar.

Chris Foster ólst upp í Somerset á Suðvestur-Englandi, þar sem hann kynntist fyrst þjóðlögum og hóf tónlistarferil sinn. Hann er tvímælalaust frábær flytjandi enskrar þjóðlagatónlistar. Síðastliðin 40 ár hefur Chris haldið ótal tónleika á Bretlandseyjum, en einnig farið í tónleikaferðir víðsvegar um Evrópu, Bandaríkin og Kanada. Hann hefur gefið út sex plötur með eigin söng og gítarundirleik en einnig tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum.

Lifandi tónlistarflutningur Chris einkennist af kraftmiklum söng og góðum gítarleik, sem styrkist enn frekar af fágaðri fyndni hans og eldmóði. Með þessu tekst honum að draga áheyrendur sína inn í sagnaheiminn sem hann skapar með söngvunum.

Bára og Chris verða með tónleika í gömlu Stykkishólmskirkju við Aðalgötu laugardaginn 13. júlí kl. 16.30 í tengslum við Þjóðbúningadag Norska hússins – Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla.

Tóndæmi og ýmsan fróðleik er að finna á:  http://www.funi-iceland.com

Björn Thoroddsen – Aleinn og óstuddur

16.feb

Björn Thoroddsen gítarleikari hefur sl. 30 ár verið einn af atkvæðamestu jazztónlistarmönnum Íslands og hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum. Hann var m.a. fyrstur íslenskra gítarleikara að hlotnast sá heiður að vera útnefndur „

Jazztónlistarmaður ársins“ árið 2003 og var valinn „Bæjarlistamaður Garðabæjar“ árið 2002. Björn sæmdur gullmerki FÍH fyrir framlag sitt til jazztónlistar. Björn hefur ásamt því að vera í forsvari fyrir Guitar Islancio leikið með fjölda þekktra erlendra tónlistarmanna.

Á síðustu misserum hefur Björn verið að koma sér inn í alþjóðlegu gítarhringiðuna með því að leika með listamönnum á borð við Philip Catherine, Tommy Emmanuel, Leni Stern, Kazumi Watanabe ásamt því að stjórna sinni eigin gítarhátíð á Íslandi semog gítarhátíðum í Kanada og Noregi.

Björn verður með óvenjulegra tónleika í Stykkishólmskirkju, fimmtudagskvöldið 11. júlí. Á tónleikunum sýnir Björn á sér nýjar hliðar en hann kemur fram aleinn og óstuddur án aðstoðarmanna og spilar flest annað en djass. Tónleikarnir hefjast kl.20.
Á tónleikunum heyrist rokk, country, blús, popp og jafnvel þungarokk, enda ræður Bjössi við alla tónlistarstíla. Tónleikagestir munu heyra lög úr smiðju Deep Purple, AC/DC, Police, Who, Bítlana og fleiri.

Myndbönd af Birni:

http://www.youtube.com/watch?v=DbmTwlwpX54

http://www.youtube.com/watch?v=XJHM0FklS94

ORGELSTYKKI: Klavierübung III eftir Bach á morgun

LBE IMG_7967

Bach hljómar á Klaisorgelið á morgun þegar Lára Bryndís Eggertsdóttir leikur úr Clavierübung III kl. 16 í Stykkishólmskirkju. Allir velkomnir. Aðgangseyrir aðeins 1200 kr. Posi við innganginn.

Á tímum J.S. Bach var ekki óalgengt að tónskáld settu saman söfn tónverka sem þeir nefndu „hljómborðsæfingar“. Eftir Bach liggja fjögur slík söfn. Fyrsta (sex partítur BWV 825-830), annað (ítalski konsertinn BWV 971 og franskur forleikur BWV 831) og fjórða (Goldberg tilbrigðin BWV 988) voru ætluð fyrir hljómborð í víðasta barokk-skilningi þess hugtaks, þ.e. clavichord, sembal, orgel eða hvað sem fyrir varð. Þriðja safnið, útgefið 1739, var hins vegar sérstaklega ætlað fyrir orgel. Það samanstendur af prelúdíu, 21 sálmforleik, fjórum dúettum og fúgu, og gengur einnig undir nafninu „Þýsk orgelmessa“. Tveir sálmforleikir eru um hvern sálm, einn fyrir stórt orgel og annar einfaldari („alio modo“) fyrir minna orgel. Um dýrðarsönginn Allein Gott in der Höhe sei Ehr eru þó þrír sálmforleikir, til dýrðar heilagri þrenningu. Verkið í heild tekur hátt í tvo tíma í flutningi, en á tónleikunum í dag hljóma prelúdían og fúgan ásamt fimm sálmforleikjum.

Clavierübung III / German Organ Mass

The title „Clavierübung“ was a common title for a collection of keyboard music during the baroque period. J.S. Bach published four such collections, of which only the third (published in 1739) is specified as being intended for the organ. It consists of a grand opening prelude in E flat major, 21 chorale preludes on the Lutheran mass and catechism hymns, 4 duets for the manuals, and a triple fugue in E flat major.

Orgelstykki Sveinn Arnar Sæmundsson

Fimmtudaginn 27. júní kl. 20 leikur Sveinn Arnar Sæmundsson organisti Akranesskirkju og bæjarlistamaður Akraness 2012 á Klais orgel Stykkishólmskirkju.  Óhætt er að segja að efnisskráin sé mjög fjölbreytt og jafnvel óhefðbundin. Tónlist eftir Procul Harum, Coldplay og Bach er m.a að finna á efnisskránni.

Breyting! Þriðjudaginn 2. júlí falla niður tónleikar Douglas Brotchie af óviðráðanlegum orsökum.

ORGELSTYKKI: Friðrik Vignir Stefánsson

Friðrik Vignir Stefánsson organisti og tónlistarstjóri Seltjarnarneskirkju leikur verk eftir Bruhns, Bach, Boellmann, Michel og Takle kl. 20 mánudaginn 24.júní.

Reykjavik based organist Friðrik V. Stefánsson plays pieces by Bruhns, Bach, Boellmann, Michel and Takle June 24th at 20:00

Orgelstykki á Jónsmessu

orgelstykkiÞað er óhætt að fullyrða að fjölbreytnin verður í fyrirrúmi í tónleikaröð Listvinafélags Stykkishólmskirkju sem ber heitið Orgelstykki og hefst á Jónsmessunni n.k mánudag. Alls verða tónleikarnir 5 á tveimur vikum og hefjast kl. 20 virka daga en kl. 16 þegar þeir eru á laugardögum. Efnisskráin spannar tónsmíðar frá síðustu 400 árum eða svo og á meðan höfunda eru Bach, Pachelbel, Sigvaldi Kaldalóns, Procol Harum, Britten, Jón Leifs og Böellmann. Á fyrstu tónleikunum leikur Friðrik Vignir Stefánsson organisti í Neskirkju í Reykjavík á Klaisorgelið í Stykkishólmskirkju. Strax á fimmtudeginum kemur Skagamaðurinn Sveinn Arnar Stefánsson organisti á Akranesi og leikur í bland yngri tónlist en gengur og gerist á orgelin. Laugardaginn 29. júní kl. 16 koma þau Örn Magnússon organisti í Breiðholtskirkju og Marta Guðrún Halldórsdóttir sópransöngkona og flytja efnisskrá fyrir orgel og söng og líta í íslensku handritin eftir tónlist til flutnings. Þriðjudaginn 2. júlí kemur Douglas Brotchie sem um árabil var organisti Háteigskirkju í Reykjavík og endahnútinn rekur Lára Bryndís Eggertsdóttir organleikari búsett í Danmörku. Tónleikarnir eru um einnar klst. langir og eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Aðgangseyrir er eingöngu 1200 kr. Tekið er við greiðslukortum á tónleikastað.

Icelandic organists play the Klais organ in Church of Stykkishólmur.  Monday June 24th at 20:00, Thursday June 27th at 20:00, Saturday June 29th at 16:00 Tuesday July 2nd at 20:00 and Saturday 6th of July at 16:00  Ticket at the entrance only IKR 1200

 

Sumartónleikar og orgelstykki í Stykkishólmskirkju sumarið 2013

Stykkishólmskirkja sem arkitektinn Jón Haraldsson teiknaði var vígð árið 1990 og þótti mikið mannvirki í bæjarfélagi með innan við 1500 íbúa. Í Stykkishólmi hefur verið öflugt menningar- og tónlistarlíf í áratugi. Þegar Stykkishólmskirkja var vígð flutti forláta Steinway flygill sem Jónas Ingimundarson valdi en bæjarbúar söfnuðu fyrir, úr félagsheimilinu í kirkjuna til frambúðar. Orgel kom í kirkjuna úr gömlu kirkjunni í Stykkishólmi sem sérsmíðað hafði verið fyrir hana á sínum tíma. Í janúar kom svo 22 radda glæsilegt Klais orgel í Stykkishólmskirkju annað tveggja Klais orgela á Íslandi, hitt verandi í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Enn og aftur söfnuðu bæjarbúar fé til orgelkaupanna. Við vígslu orgelsins árið 2012 var stofnað Listvinafélag Stykkishólmskirkju sem tók við umsjón tónleikahalds í kirkjunni og hefur það á stefnuskránni að auka menningarlíf í kirkjunni. Síðustu tvo áratugi hafa verið haldnir sumartónleikar í Stykkishólmskirkju enda hljómfögur kirkja með fyrsta flokks hljóðfærum til tónlistarflutnings. Margir ungir og upprennandi íslenskir og erlendir tónlistarmenn hafa komið fram í Stykkishólmskirkju og margir oftar en einu sinni. Árið 2012 var hleypt af stokkunum sérstökum tónleikum innan sumartónleikaraðarinnar Orgelstykki og voru á tveimur vikum haldnir 6 tónleikar undir merkjum Orgelstykkjanna. Þar komu fram íslenskir organistar einir eða með fleiri tónlistarmenn með í för með efnisskrá að eigin vali. Úr varð vel heppnuð blanda og fjölbreyttir tónleikar. Í ár verður haldið áfram með enn fleiri orgelstykki með tónlistarmönnum sem eru að reyna Klaisorgelið í fyrsta sinn. Aðrir tónleikar verða samhliða orgelstykkjunum og verður fjölbreytt tónlist í boði, sem endranær. Björn Thoroddsen, Sunna Gunnlaugs, Lars Janson og Sigurður Flosason eru stór nöfn í alþjóðlegu samhengi djassheima og þau munu öll leika á tónleikum í Stykkishólmskirkju í sumar. Bára Grímsdóttir og Chris Foster verða á þjóðlegum nótum með gömlu íslensku hljóðfærin í bland við nýrri og koma fram í gömlu friðuðu kirkjunni í Stykkishólmi í tengslum við árlegan Þjóðbúningadag sem haldinn er í Norska húsinu – byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla.

Næstu tónleikar í Stykkishólmskirkju:

24. júní kl. 20 – Orgelstykki: Friðrik Vignir Stefánsson

27. júní kl. 20 – Orgelstykki: Sveinn Arnar Sæmundsson

29.júní kl. 16 – Orgelstykki: Örn Magnússon & Marta Guðrún Halldórsdóttir

2. júlí kl. 20 – Orgelstykki: Douglas Brotchie

6. júlí kl. 16 – Orgelstykki: Lára Bryndís Eggertsdóttir

Margt um að vera í kirkjunni næstu daga

Norðurljósahátíð er haldin í Stykkishólmi dagana 18. -21. október.  Margir viðburðir eru af því tilefni í Stykkishólmskirkju.  Ber þar helst að nefna opnunartónleika hátíðarinnar sem eru 18. október kl. 21 og margir Hólmarar koma fram og flytja tónlist.  Föstudaginn 19.október verður hljóðritað þjóðlag í kirkjunni með börnunum í Stykkishólmi á vegum Fjallabræðra.  Laugardaginn 20. október verður Kór Stykkishólmskirkju með tónleika undir yfirskriftinni Stjörnur og tungl þar sem rauði þráðurinn er tónlist eftir Hólmarann Hreiðar Inga Þorsteinsson og mun hann stjórna á tónleikunum.  Strax á eftir er boðið upp á svokallaða biblíusúpu í safnaðarheimilinu og munu Lázló Petö organisti og Símon Karl Sigurðarson klarinettunemandi við FÍH leika Mozart sónötur fyrir klarinett og orgel á meðan súpan er borin fram.  Kl. 14 verður aftur hljóðritun á þjóðlagi.  Kl. 16 verður Karlakórinn Kári með tónleika í fylgd góðra gesta.  Kirkjuskólinn verður kl. 11 sunnudaginn 21. október og söngmessa verður í kirkjunni kl. 11

Portretttónleikar Hallvarðs Ásgeirssonar

Sunnudaginn 14. október n.k. kl.17 býður Listvinafélagið upp á tónleika með Hallvarði Ásgeirsyni og kammersveit hans.
Kammersveit Hallvarðs spilar andrýmistónlist (e. ambience) sem ganga út frá hljóðhringrás opinna strengja gítarsins (e. feedback).Verkin ganga út frá pedaltón, sem hljóðskúlptúr er vafinn í kringum.
Tónlistin markast af gítarleik Hallvarðs, sem er unnin í gegnum hljóðeffekta og tölvu, ásamt fjölbreyttum strengjaleik Hallgríms Jónasar Jenssonar á selló og dórófón og Alexöndru Kjeld á kontrabassa og fiðlu.
Dórófónn #7 er smíði Halldórs Arnar Úlfarssonar sem nýtir sér bæði hefbundna spilamöguleika sellósins og einnig endurómun sem verður til þegar strengirnir eru magnaðir upp og hljómur þeirra síðan senduraftur inn í hljómkassa dórófónsins með hjálp raftækni.

Hallvarður Ásgeirsson er tónskáld sem semur klassískar tónsmíðar, raftónsmíðar og vinnur með hljóð í gegnum tölvu. Hann er einnig rafgítarleikari sem vinnur með hljóðeffekta. Verk Hallvarðs falla að mestu leyti í tvo flokka – andrýmistónlist fyrir klassísk hljóðfæri, raftónlist, tónlist sem blandar saman fundnum hljóðum og tónlistarlegum þáttum. 
Hann lærði á klassískan gítar frá unga aldri og á rafgítar í Tónlistarskóla FÍH. Hann nam raftónlist við Tónver Tónlistarskóla Kópavogs 2000-2001. Hann nam tónsmíðar á brautinni tónsmíðar/nýmiðlar við Listaháskóla Íslands 2002-2006. Hann stundaði nám í tónsmíðum við Brooklyn College 2007-2009 þar sem hann lauk MA gráðu og lærði hjá Douglas Cohen, Tania Leon og Jason Eckhart. Hann hefur einnig leikið í mörgum hljómsveitum svo sem Stórsveit Nix Noltes, Líkn og Fengjastrút. Verk hans hafa verið flutt á International Electroacoustic Music Festival í Brooklyn College, og einnig voru flutt verk fyrir sjálfspilandi hljóðfæri og gítar í LEMUR (League of Musical Urban Robots). Tónsmíð fyrir leikritið MIKA var flutt í Sameinuðu Þjóðunum nóvember 2008. Hallvarður vann tónsmíðakeppnina Ný Tónskáld á hátíðinni Við Djúpið. Verkið Heiðskírt var æft upp af blásarakvintett og flutt í tónleikasalnum Hamrar á Ísafirði sunnudaginn 27. júní 2010. Lagið Rýtingur eftir Hallvarð og Gest Guðnason komst áfram í undankeppni Evróvision 2011.
Hallvarður hefur áður samið fyrir dórófóna, þ.a.m verkið 1 milljón sólir (2003), en það var samið dórófón#1 ásamt strengjum og orgeli og verkið Miniature#5 (2011), en það var samið fyrir píanó og dórófón#7. Verkið Serial Killer(2004) var samið fyrir strengjasveit og tvo gítara. Tónverkið Paradox XII(2008) var samið fyrir fiðlu er höfundur var við nám í Brooklyn College. Það nýtír sér “extended technique” fyrir fiðlu.

Þór Breiðfjörð og Valgerður Guðnadóttir flytja sívinsælt efni úr söngleikjum

Þór Breiðfjörð og Valgerður Guðnadóttir koma sjóðheit úr verðlaunasöngleiknum Vesalingunum og verða með hressa og kröftuga söngleikjadagskrá fyrir unga sem aldna í Stykkishólmskirkju fimmtudaginn 16. ágúst n.k. kl. 20:30. Bæði verða flutt nokkur af stórsönglögum söngleikjanna (Vesalingarnir, Óperudraugurinn) ásamt því að slegið verður á létta strengi og meðal annars flutt ýmis lög úr Disney-kvikmyndum eins og Alladín, Litlu hafmeyjunni, Skógarlífi, Gosa, Konungi ljónanna, Söngvaseiði og fleiru. Fullkomin skemmtun fyrir söngelsku fjölskylduna.

Þór sem á ættir sínar að rekja í Stykkishólm vann Grímuna í sumar fyrir að syngja aðalhlutverkið í söngleiknum Vesalingunum, sem sló öll aðsóknarmet síðastliðinn vetur. Valgerður á að baki farsælan feril bæði sem söng- og leikkona, vann meðal annars Grímuna fyrir söng sinn í söngleiknum Söngvaseið. Einnig er hún þekkt sem hin íslenska rödd margra Disney-persóna.

Aðgangseyrir kr. 2.000 / Frítt fyrir börn yngri en 16 ára.